Binda vonir við verkefni einkaaðila

,,Það verður að segjast eins og er að það er fremur rólegt núna og engin stórverkefni í pípunum. Það er þó nóg fyrir alla karla að gera en það er ekki að sjá að það verði mikið í gangi á árinu.”

Þetta sagði Ólafur Snorrason, framkvæmdastjóri Ræktunarsambands Flóa og Skeiða, þegar hann var spurður um verkefnastöðu nú um áramótin.

Fjörutíu starfsmenn eru hjá fyrirtækinu og vonast Ólafur til þess að hafa nóg fyrir þá að gera fram eftir árinu. Þannig stæðu borverkefni þokkalega núna en það væri áhyggjuefni að engin stórverkefni væru framundan og mikil ládeyða í verkefnum hjá hinu opinbera.

,,Það eru helst einkaaðilar sem eru að skoða einhver verkefni og við vonum að það verði eitthvað úr þeim,” sagði Ólafur.