Bílvelta í Þrengslunum

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Tveir erlendir ferðamenn voru fluttir á slysadeild eftir að fólksbíll þeirra valt útaf Þrengslavegi síðdegis í dag, við syðri námuna í Lambafelli.

„Það er fljúgandi hálka þarna og ökumaðurinn missti stjórn á bílnum og lenti á skilti áður en hann fór út fyrir veg og valt,“ sagði Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu, í samtali við sunnlenska.is.

Tvennt var í bílnum og var fólkið flutt á slysadeild í Reykjavík en meiðsli þeirra eru talin minniháttar.

Tækjabíll frá slökkviliðinu var kallaður út ásamt sjúkraflutningamönnum og lögreglu en ekki var ljóst í upphafi hvort beita þyrfti klippum til að ná fólkinu úr bílnum. Þess þurfti ekki en slökkviliðsmenn hreinsuðu brak af vettvangi.

Sandari í vandræðum
Að sögn Péturs er gríðarleg hálka á vegum í Árnessýslu í dag og lenti sandbíll frá Vegagerðinni í vandræðum á Biskupstungnabraut fyrir ofan Þrastalund í morgun og þurfti hann að bakka upp brekkuna þar með sanddreifarann á undan sér.

Annars voru áramótin róleg hjá Brunavörnum Árnessýslu ef frá er talinn stórbruni á sumarhúsi í Grímsnesinu á gamlárskvöld. Slökkvistarfi þar lauk fyrir miðnætti og náðu slökkviliðsmennirnir heim rétt fyrir áramót.

Fyrri greinGlæsilegur sigur Hilmis Freys
Næsta greinBergrós sigraði á jólamóti lyftingasambandsins