Bílstjórinn slapp án meiðsla

Ökumaður langferðabifreiðar sem fauk útaf Þjórsárdalsvegi fyrir neðan Þrándarholt á tólfta tímanum í morgun slapp án meiðsla. Hann var einn í bílnum.

Hálka og skafrenningur var á veginum og fékk bílstjórinn ekki við neitt ráðið þegar vindhviða hreif bílinn. Hann var ekki á mikilli ferð en bíllinn endaði á hliðinni ofan í skurði. Ökumaðurinn var í bílbelti og er ljóst að þau hafa bjargað honum frá meiðslum.

Kranabíll verður notaður til þess að ná rútunni aftur upp á veg og má búast við einhverjum umferðartöfum þegar það verður gert.