Bílslys olli rafmagnsleysi í Ölfusinu

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ökumaður missti bíl sinn útaf Þorlákshafnarvegi við Bakkatjörn síðdegis í dag og hafnaði á rafmagnsspennistöð.

Bifreiðin snerist út af veginum og og hélst á hjólunum en afturendi hennar hafnaði af miklu afli á spennistöðinni. Slysið átti sér stað kl. 17:34 og við það fór rafmagnið af stórum hluta dreifbýlisins í Ölfusi, frá Hveragerði suður að Hrauni.

Ökumaðurinn, ung kona, var meðvitundarlítil þegar að var komið. Hún var flutt með sjúkrabíl á slysadeild í Reykjavík.

Starfsmenn RARIK eru að ljúka við viðgerð en þeim tókst fljótlega að koma rafmagni á norðurhluta svæðisins. Straumlaust var sunnan slysstaðarins, að Hrauni fram eftir kvöldi.

Ekki er vitað um tildrög slyssins sem átti sér stað á beinum og þurrum vegi.

Fyrri greinKláruðu leikinn á fimm mínútum
Næsta greinÁ gjörgæslu eftir mótorhjólaslys