Bíllinn verður gerður upp og settur á safnið í Skógum

Árið 1974 fékk Flugbjörgunarsveitin á Hellu að gjöf Jeep Willys árgerð 1947 frá þeim Magnúsi Sigurlásyni og Rudolfi Stolzenwald. Þetta var á þeim tíma annar bíll sveitarinnar.

Bíllinn var í eigu sveitarinnar til ársins 1981 en þá var hann færður Þjóðminjasafninu til varðveislu.

Fyrir nokkrum árum fóru félagar sveitarinnar að forvitnast um bílinn og var hann þá enn á þeim stað sem honum var lagt árið 1981. Sú hugmynd kviknaði að koma bílnum á Samgöngusafnið í Skógum og eftir nokkur samskipti milli safnana og sveitarinnar varð niðurstaðan sú að sveitin myndi taka bílinn í sína vörslu um stund og koma honum í sýningarhæft ástand og koma honum síðan í Skóga.

Í gær var farin viðhafnarferð til Reykjavíkur og bíllinn fluttur á Hellu. Það voru þeir Valur Haraldsson og Þröstur Jónsson sem veittu bílnum viðtökur að viðstöddu fjölmenni en þeir Valur og Þröstur hafa unnið mörg björgunarafrekin á þessu tæki þó það nái þeim nú ekki í aldri.

Fyrri greinStokkseyringar lutu í gervigras
Næsta grein150 milljónir í sunnlensk verkefni