Í morgun voru björgunarsveitirnar Dagrenning á Hvolsvelli og Flugbjörgunarsveitin Hellu kallaðar út á mesta forgangi eftir að bíll með fimm manns um borð festist í Markarfljóti, rétt við Gilsá á Emstruleið.
Bílnum hafði verið ekið af leið með þeim afleiðingum að hann fór út í Markarfljót, sem er talsvert vatnsmikið. Þar sat hann fastur og tók að skríða niður ána. Í landi var fólk sem treysti sér ekki til að koma farþegum bílsins til aðstoðar og var óttast um öryggi þeirra um tíma.
Björgunarfólk fór á mesta forgangi inn Emstruleið og þegar þau komu á staðinn var vörubíl björgunarsveitar ekið út í ána og fólkinu bjargað úr bílnum og flutt í land. Aðstæður voru þannig að ekki var talið óhætt að reyna að koma bílnum upp úr ánni á þeim tímapunkti.
Fólkið komst því í land og gat haldið áfram för með samferðafólki eftir að hafa verið skoðað af sjúkraflutningamönnum sem komu á staðinn.

