Bílastæðagjöld lögð á við Seljalandsfoss og Skógafoss

Sveitarstjórn Rangárþings eystra samþykkti á síðasta fundi sínum tillögu D-listans að tekið verði upp bílastæðagjald við Seljalandsfoss og Skógafoss á vori komanda.

Í greinargerð með tillögunni segir að vegna stóraukins fjölda ferðamanna sé ljóst að bílastæði við þessa staði séu löngu „sprungin” og hefur þar verið viðvarandi slysahætta vegna þrengsla.

Gerð nýrra bílastæða er kostnaðarsöm og hönnun tekur tíma. Að mati flutningsmanna er það sjálfsagt og eðlilegt að þessir fjölsóttu staðir geti staðið undir þeim kostnaði sem af hlýst við að skapa betri umgjörð og ánægjulegri upplifun gesta og íbúa um leið og stuðlað er að auknu öryggi þeirra.

Ennfremur segir í greinargerðinni að samþykkt tillögunnar nú skapi mönnum svigrúm til að vanda allan undirbúning og gefur aðilum í ferðaþjónustu tíma til að laga sig að þeim breytingum sem hér væru boðaðar.

Tillagan var samþykkt samhljóða og í kjölfarið bókuðu fulltrúar B-listans að deiliskipulagsvinna við Seljalandsfoss og nágrenni væri langt komin og hefur þar verið gert ráð fyrir rúmgóðum bílastæðum. Stefnt hefur verið að því að ljúka þeirri vinnu eins fljótt og kostur er, með það að markmiði að hægt verði að ljúka við ný bílastæði samkvæmt skipulagi fyrir næsta sumar.

„Sveitarstjórn hefur á tveimur síðastliðnum fundum sínum fengið til sín gesti til að bera saman leiðir til að hefja gjaldtöku á umræddum bílastæðum, svo undirbúningur gjaldtöku er þegar hafinn, enda hefur sveitarstjóra verið falið að vinna úr upplýsingum undangenginna kynninga,“ segir í bókuninni.

Fyrri greinFyrsta tap Selfoss á heimavelli
Næsta greinLeitað með drónum og þyrlu