Bílastæðagjöld innheimt á Þingvöllum

Þingvallanefnd hefur ákveðið að hefja innheimtu bílastæðagjalds á afmörkuðum bílastæðum á Þingvöllum. Um þjónustugjald er að ræða sem ætlað er að standa undir kostnaði þjóðgarðsins við rekstur bílastæðanna.

Gjaldið verður innheimt á Hakinu við efri enda Almannagjár en þar er gestastofa þjóðgarðsins; í öðru lagi á svokölluðu Þingplani þaðan sem gengið er upp í Almannagjá af Efrivöllum og í þriðja lagi skv. nánari ákvörðun á Valhallarplani þar sem hótelið stóð áður.

Forsætisráðuneytið hefur staðfest reglur og gjaldskrá þjóðgarðsins. Samkvæmt gjaldskránni er gjald fyrir hvern einkabíl kr. 500. Fyrir hópferðabíla fyrir 15 farþega eða fleiri kr. 3.000. Fyrir hópferðabíla fyrir 14 farþega eða færri eru greiddar kr.1.500 og fyrir jeppa/hópferðabíla fyrir 8 farþega eða færri kr. 750. Gjaldið veitir heimild til að leggja bifreið í allt að 24 klst.

Á bílastæðum ætluð einkabílum eru verða gjaldmælar svipaðir þeim sem eru víða á höfuðborgarsvæðinu. Þar fæst greiðslukvittun sem skilja á eftir í glugga bílsins. Á bílastæði hópferðabíla verður starfsmaður sem tekur við gjaldi hvers bíls samkvæmt nánara fyrirkomulagi.

Taka mun nokkrar vikur að ganga frá bílastæðum og koma upp viðeigandi búnaði auk þess að kynna gjaldið og innheimtu þess fyrir aðilum í ferðaþjónustu. Gert er ráð fyrir að heildartekjur þjóðgarðsins verði um 40-50 milljónir króna á ári en þjónustu-, rekstar- og viðhaldskostnaður bílastæðanna er um 50 milljónir króna á ári.

Fyrri greinMestu afföllin á Vestur- og Suðurlandi
Næsta greinZoran hættir með Selfossliðið – Gunni Borg tekinn við