Bílasalar skipta um gír

Fyrir viku seldi Ingimar Baldvinsson nýjan, níu milljón króna bíl. Þann fyrsta nýja síðan í desember 2007. „Tákn um betri tíð,“ segir hann.

Bíllinn er af gerðinni Ford F150 Raptor, árgerð 2010 og kaupandinn ónefndur Reykvíkingur. Ingimar segist þegar byrjaður að vinna í sölu á næsta og meiri hreyfing sé á notuðum bílum.
„Botninum er náð og leiðin liggur bara uppávið,“ sagði Ingimar í samtali við Sunnlenska.

Rekstur IB bílasölunnar hefur verið erfiður undanfarin tvö ár, að sögn Ingimars. „En eignastaðan var góð við hrun. Þannig að í stað þess að safna skuldum hef ég einfaldlega selt það sem við áttum til.“

Haukur, bróðir Ingimars, er framkvæmdastjóri Bílasölu Suðurlands og þar á bæ eru menn sömuleiðis bjartsýnir. Í júlí hafi selst 105 bifreiðar, samanborið við rúmlega 80 bíla á sama tíma í fyrra.