Bílar útaf og þakplötur flugu

Vind herti nokkuð á Selfossi og í nágrenni síðdegis og fór rúta meðal annars útaf veginum undir Ingólfsfjalli auk þess sem þakplötur fóru á flug innanbæjar á Selfossi.

Um tuttugu manns voru í rútunni sem fauk út af veginum skammt frá afleggjaranum að Þórustaðanámu. Engan sakaði, hvorki ökumann eða farþega, og voru farþegarnir fluttir yfir í aðra rútu. Búið er að fjarlægja bílinn af vettvangi.

Björgunarfélag Árborgar var kallað út á sjöunda tímanum í kvöld þar sem þakplötur voru farnar að losna af húsi í Lyngheiði. Ein platan lenti á bifreið og skemmdi hana en björgunarsveitarmönnum tókst að koma í veg fyrir frekara tjón.

Einnig fór vörubíll með langan tengivagn útaf veginum á Hellisheiði í dag og voru björgunarsveitarmenn kallaðir úr til að aðstoða þar á vettvangi.

Veðrið er nú gengið niður en vindmælirinn undir Ingólfsfjalli gefur til kynna að vindur sé nú 3 m/sek.

Fyrri greinJón á Hofi fékk tundurdufl í veiðarfærin – Myndband
Næsta greinFimleikafólkið frá Selfossi hyllt