„Bílabrenna“ á Hvolsvelli

Það eru engir bílar á brennunni, en vegleg er hún. Ljósmynd/Rangárþing eystra

Á Hvolsvelli halda menn sínu striki með áramótagleðina þrátt fyrir takmarkanir en á gamlársdag verður áramótabrenna kl. 17:00 á túninu norðan við Króktún, reyndar með breyttu fyrirkomulagi.

Ströngustu sóttvarnarreglur verða gildi, eftir að tímabundið leyfi til brennuhalds fékkst frá yfirvöldum. Brennan verður eins konar „bílabrenna“, þar sem íbúar eru beðnir að halda kyrru fyrir í bílum sínum og njóta brennunnar með sinni áramótakúlu.

Bílum verður beint á bílastæði í kringum brennuna og er fólk hvatt til að virða þau tilmæli sem sett eru og fara ekki úr bílum sínum meðan á brennunni stendur.

Flugeldasýningin verður svo klukkan 18:00 og verður skotið af Hvolsfjalli eins og í fyrra, þannig að hægt verður að njóta sýningarinnar heiman frá sér og ætti að vera nægur tími til að yfirgefa brennusvæði áður en flugeldasýning hefst.

Rangárþing eystra setur þó þann fyrirvara að ef einhverjar breytingar verða á fjölda smita eða sóttvarnarreglum verður brennunni aflýst með stuttum fyrirvara.

Fyrri grein389 í einangrun á Suðurlandi
Næsta greinÓmar Ingi íþróttamaður ársins og Þórir þjálfari ársins