Bifreið gjöreyðilagðist í eldi

Bifreiðin var alelda þegar slökkviliðsmenn komu á vettvang. Ljósmynd/Ingvar Sigurðsson - BÁ

Eldur kom upp í lítilli sendibifreið á Eyrarbakka á fimmta tímanum í dag. Enginn slasaðist en bifreiðin er gjörónýt.

Neyðarlínan fékk tilkynningu um alelda bifreið við Háeyrarvelli á Eyrarbakka og höfðu Brunavarnir Árnessýslu töluvert viðbragð vegna eldsins en að sögn Péturs Péturssonar, slökkviliðsstjóra, var í upphafi talið að hús sem bíllinn stóð uppvið væri í hættu en svo reyndist ekki vera.

Hins vegar var annar bíll í hættu en slökkviliðsmönnum tókst með snarræði að forða honum undan eldinum og urðu aðeins smávægilegar skemmdir á þeim bíl.

Greiðlega gekk að slökkva eldinn. Eldsupptök eru ókunn en bifreiðin var mannlaus þegar eldurinn kom upp.

Greiðlega gekk að slökkva eldinn. Ljósmynd/Ingvar Sigurðsson – BÁ
Fyrri grein„Eins og að fylgjast með spennandi handboltaleik“
Næsta greinGrace Rapp áfram á Selfossi