Bifreið kastaðist á ferðamann við árekstur

Erlendur ferðamaður slasaðist lítillega þegar dráttarvél var ekið aftan á kyrrstæðan bíl hans á Árbæjarvegi rétt vestan við Hellu síðdegis í dag.

Maðurinn hafði stöðvað bifreiðina og farið út úr henni til að taka myndir. Bíllinn kastaðist síðan á manninn við áreksturinn.

Hann var fluttur á slysadeild Landspítalans til skoðunar.

Bíll mannsins er mikið skemmdur en traktorinn skemmdist lítið ef frá er talinn tækjabúnaður sem var framan á honum.

Nokkur umferð erlendra ferðamanna er enn um Suðurland og voru þrír útlendingar stöðvaðir austan við Hvolsvöll í dag eftir að hafa kitlað pinnann óþarflega mikið. Sá sem hraðast ók var á 120 km hraða en hámarkshraðinn þarna er 90 km/klst.

Fyrri greinSoffía Sigurðar: Alþýðuvit í hagstjórn
Næsta greinTitringur á jarðskjálftafundi