Bifreið ónýt eftir eldsvoða

Ökumaður fólksbifreiðar slapp með skrekkinn þegar eldur gaus upp í fólksbifreið við Ingólfstorg á Selfossi á áttunda tímanum í kvöld.

Ökumaðurinn stöðvaði bílinn við hringtorgið til að veita umferð forgang. Þá drapst á bílnum og skömmu síðar gaus upp mikill reykur og eldur í kjölfarið. Ökumaðurinn var einn á ferð og forðaði hann sér út úr bílnum í tæka tíð.

Slökkvilið Brunavarna Árnessýslu á Selfossi var kallað á vettvang og réðu slökkviliðsmenn niðurlögum eldsins á skammri stundu. Bifreiðin er gjörónýt.

Fyrri greinUppbygging ferðaþjónustu er langhlaup
Næsta greinGestum hverasvæðisins fækkaði ekki vegna gjaldtökunnar