Biðu á bílþakinu við Landmannalaugar

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Björgunarsveitir á Suðurlandi og þyrla Landhelgisgæslunnar voru kallaðar út síðdegis í dag þegar beiðni um aðstoð barst frá ferðafólki sem sat fast í á við bílastæðið við Landmannalaugar.

Miklir vatnavextir eru í ám og lækjum á svæðinu eftir hlýindi undanfarna daga og er áin, sem yfirleitt er tiltölulega meinlaus er nú djúp og straumhörð. Þegar út í ána var komið drap bíllinn á sér og vatn flæðir inn um glugga dekkjum auk þess sem áin hreyfir hann til.

Fyrst um sinn biðu ferðalangarnir, sem eru fimm talsins, í bílnum en þegar þetta er skrifað eru þeir komnir upp á þak hans og bíða þar eftir hjálp.

Mikill krapi er að Fjallabaki og tekur langan tíma fyrir björgunarsveitir að komast á staðinn. Því var ákveðið að kalla út þyrlu Landhelgisgæslunnar sem fór þegar í loftið en ekki er vitað hversu langan tíma það tekur hana að komast á staðinn.

UPPFÆRT KL. 20:00: Þyrla LHG fór í loftið kl. 17:35 og kom að staðnum kl. 18:46. Fólkið var komið um borð í þyrluna kl. 18:58 og var þá flogið beint til Reykjavíkur. Áætlað var að lenda við Landspítalann í Fossvogi kl. 19:46. Ekkert amaði að fólkinu.

Fyrri greinÓfært um Auðsholtsveg
Næsta greinGjörbreyttar aðstæður við Flóaskóla