„Bíðum eftir lokasvari SASS“

„Við bíðum eftir lokasvari frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga. Berist það ekki, segir sig sjálft að við leitum til annarra um samstarf í atvinnuþróun á Suðurlandi.“

Þetta segir Aðalsteinn Þorsteinsson forstjóri Byggðastofnunar í samtali við RÚV.

Bjarni Guðmundsson framkvæmdastjóri SASS segir að fyrirspurn Byggðastofnunar hafi verið svarað í janúar og verði fullsvarað þegar samningsdrög liggi fyrir.

Byggðastofnun óskaði eftir skýringum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, þegar þau buðu fimm starfsmönnum sínum starfslok skömmu fyrir jól. Formaður samtakanna sagði þá að starfsmönnunum yrði sagt upp ef þeir myndu ekki una starfslokum.

Störf fjögurra, þriggja atvinnuráðgjafa og eins verkefnisstjóra, tengdust beint samningi Byggðastofnunar og SASS um atvinnuþróun. Samtökin sögðu síðan menningarfulltrúa og atvinnuráðgjafa upp störfum og gengu frá starfslokum annars atvinnuráðgjafa.

Stjórn SASS á nú í viðræðum við Háskólafélag Suðurlands, Markaðsstofu Suðurlands, Þekkingarsetur Vestmannaeyja og Þekkingarsetrið Nýheima á Höfn um samstarf í atvinnuþróun og ráðgjöf.

Frétt RÚV

Fyrri greinOpið yfir Hellisheiði
Næsta greinFimm HSK met sett á mótinu