Bíða svara ráðherra

„Það eru mikil vonbrigði að komast að því að núverandi brú sé aðeins tryggð sem slík og að tryggingin sé ekki nógu há til að borga nýja brú.

Mjög einkennilegt í alla staði þar sem engin leið er fyrir okkur að byggja nýja „gamla“ brú sem tryggingin næði yfir, þetta er stór galli á kerfinu“, segir Eva Björk Harðardóttir, oddviti Skaftárhrepps.

Sveitarfélagið berst nú fyrir því að fá nýja brú yfir Eldvatn vegna skemmda sem urðu á undirstöðu gömlu brúarinnar í Skaftárhlaupinu í fyrra.

„Við erum núna að bíða eftir að fá viðtal við Ólöfu Norðdal innanríkisráðherra til að ræða fjármögnun á nýrri brú. Þessi brú er mjög nauðsynlegur hluti af samgöngum um Skaftárhrepp. Án hennar lengist t.d. dagur skólabarna í Skaftártungu um tæpa klukkustund á dag. Allir aðflutningar og samgöngur um hreppinn verða torveldari ásamt því að öryggi íbúa er teflt í tvísýnu ef þarf að rýma eða hætta steðjar að,“ bætir oddvitinn við.

Fyrri greinÖruggur sigur í lokaumferðinni
Næsta greinDagbók lögreglu: Braut gegn nálgunarbanni