Bíða með áfrýjun, telja þjónustu veitta

Lögmaður Grímsnes- og Grafnings­hrepps leggur til að nýlegum dómi Héraðsdóms Suðurlands um ferða­þjónustu við fatlaða verði áfrýjað til Hæstaréttar nái frumvarp um verka­skiptingu sveitarfélaga og ríkis ekki fram að ganga.

Sveitarstjórn hyggst fresta ákvörðun um áfrýjun þar sem líkur eru til að málaflokkurinn færist til sveitarfélagsins um áramót.

Dómurinn kvað á um að sveitar­félaginu sé skylt að veita fötluðum einstaklingi, búsettum á Sólheimum, ferðaþjónustu fatlaðra í samræmi við ákvæði laga nr. 59/1992. Sigurður Jónsson lögmaður sveitarfélagsins sagði í samtali við Sunnlenska að fötluðum vistmönnum á Sólheimum standi þessi þjónusta nú þegar til boða og því hagnist viðkomandi einstaklingur ekki á niðurstöðu dómsins. Sveitarstjórnin samþykkti að fresta ákvörðun um áfrýjun dómsins þar til í ljós komi hvort frumvarp um verkaskiptingu sveitarfélaga og ríkis nái fram að ganga. Málið falli hins vegar um sjálft sig ef verkaskiptingin nær fram að ganga.

Deilur vegna ferðakostnaðar fatlaðra á Sólheimum hafa staðið lengi yfir og nýverið vísaði félagsmálanefnd uppsveita Árnes­sýslu frá umsókn fimm fatlaðra einstaklinga frá Sólheimum um ferðaþjónustu m.a. á þeirri forsendu að þær virtust vera sendar af starfsmönnum Sólheima sem hluti af langvarandi deilum Sólheima og Grímsnes- og Grafningshrepps og að ekki fylgdu með undirskriftir umsækjenda né umboð frá þeim til handa starfsmanni Sólheima sem sótti um fyrir þeirra hönd.