Betur fór en á horfðist

Ökumaður var fluttur með sjúkrabíl til Reykjavíkur eftir að hafa lent í árekstri á Suðurlandsvegi, um 6 km austan við Hvolsvöll í dag.

Jepplingur og fólksbíll lentu saman. Hinn slasaði var einn í bílnum en tveir voru í hinum bílnum og sluppu þeir ómeiddir.

Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli virtist slysið alvarlegt við fyrstu sýn og var þyrla Landhelgisgæslunnar m.a. sett í viðbragðsstöðu.

Suðurlandsvegur var lokaður í skamma stund vegna slyssins áður en önnur akreinin var hreinsuð og opnuð.

Tildrög slyssins eru óljós en málið er í rannsókn.