Betri árangur þrátt fyrir verkfall

Námsárangur nemenda í dagskóla hjá Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi var betri á nýliðinni vorönn heldur en tveimur síðustu vorönnum.

Við upphaf annarinnar lögðu nemendur í dagskóla undir 15.177 einingar og undir lok annar höfðu nemendur staðist 12.004 einingar. Það þýðir að rétt tæplega 21% eininga höfðu tapast á önninni.

Til samanburðar má geta þess að vorið 2012 töpuðust rúmlega 22% eininga og vorið 2013 sömuleiðis rúmlega 22%.

Þetta kom fram í annarannál Þórarins Ingólfssonar, aðstoðarskólameistara, við brautskráningu nemenda í vikunni.

Þórarinn segir að önnin í heild sinni hafi litast af umræðu um kjarabaráttu kennara og hugsanlegt verkfall. Verkfallið skall síðan á þann 17. mars og stóð í þrjár vikur.

„Verkfallið hafði auðvitað áhrif á skipulag annarinnar og var reynt eftir mætti að koma á móts við nemendur og bæta þeim upp þær kennslustundir sem féllu niður. Starfsmenn óttuðust að verkfallið hefði áhrif á árangur nemenda og færri myndu skila sér til loka annar. Sá ótti var ástæðulaus og kemur það fram þegar farið er yfir námsárangur annarinnar,“ sagði Þórarinn.