Besta göngubók UMFÍ í heimi komin út

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson, kynningarfulltrúi UMFÍ og ritstjóri Göngubókar UMFÍ. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er algjörlega bók sumarsins. Geggjuð göngubók. Við tókum Göngubók UMFÍ í gegn, uppfærðum fjölmargar leiðir um alla land, bættum fleirum inn, tókum aðrar út og endurnýjuðum öll kortin,“ segir Jón Aðalsteinn Bergsveinsson, kynningarfulltrúi UMFÍ og ritstjóri Göngubókar UMFÍ.

Nýjasta eintak Göngubókarinnar Göngum um Ísland var að koma út og er verið að dreifa henni.  

Kjarni UMFÍ í bók
Bókin kom fyrst út árið 2002 og innihélt hún þá 144 stuttar gönguleiðir víða um landi. Heilmikil vinna lá að baki verkefninu og var hún afrakstur vinnu umhverfisnefndar UMFÍ sem sá að bók sem þessi samræmist stefnu UMFÍ. Hún eykur þekkingu fólks á landinu, kynnir það fyrir umhverfi sínu og bætir upplifun þess.

Göngubókin nýja inniheldur 258 stuttar gönguleiðir fyrir alla fjölskylduna ásamt fjölda gönguleiða á fjöll. Bókin er unnin í samvinnu við göngugarpinn Einar Skúlason, stofnanda gönguhópsins Vesens og vergangs og höfundar Wappsins. Í bókinni eru einmitt fjöldi ítarlegra lýsinga á gönguleiðum úr Wappinu og tengingar víða um bókina á nákvæmar göngulýsingar sem finna má í Wappinu.

Gönguleiðir fyrir alla
„En svo er það auðvitað kjarninn UMFÍ í bókinni. Hann snýst um það að hvetja fólk til að hreyfa sig af því að það er svo gott. Það eykur lífsgæði fólks, bæði andlega og líkamlega, hressir, bætir og kætir. Hreyfing þarf ekki að vera flókin. Gönguleiðirnar eru það alls ekki því flestar eru þær stuttar svo öll fjölskyldan geti skroppið saman í smá skreppitúr,“ heldur Jón áfram.

„Ég mæli með því að allir næli sér í eintak af bókinni og hafi það í bílnum á ferðalaginu í sumar. Þetta verður frábært sumar á tveimur jafnfljótum.“

Hægt er að grípa frítt eintak af Göngubók UMFÍ á fjölmennustu stöðum um allt land strax í næstu viku. Þeir óþreyjufullu og tæknilega sinnuðu geta líka smellt á hlekkinn hér að neðan og nælt sér í eintak í símann eða í tölvuna af vefsíðu UMFÍ.

Smella og ná í Göngubók UMFÍ 2020

Fyrri greinBíl stolið á Stokkseyri í nótt
Næsta greinSlasaðist á fæti í Reykjadal