Best skreyttu húsin við ströndina

Háeyrarvegur 2 á Eyrarbakka og Heiðarbrún 22 á Stokkseyri eru best skreyttu húsin í Árborg fyrir þessi jól. Motivo er best skreytta fyrirtækið.

Verðlaun í jólaskreytingakeppni Árborgar voru afhent í Garði jólanna í Tryggvagarði í kvöld. Á Háeyrarvegi 2 búa Sigríður Garðarsdóttir og Tyrfingur Halldórsson en húsráðendur á Heiðarbrún 22 eru Hjalti Hafsteinsson og Sigríður Jónsdóttir. Dómnefnd þótti svo jólaútstillingin í gluggum Motivo, Austurvegi 6 á Selfossi glæsilegust hjá fyrirtækjum í Árborg. Ásta Kristinsdóttir og Erla Gísladóttir, eigendur verslunarinnar, tóku við verðlaununum.

Í ár voru 30 hús tilnefnd og segir Siggeir Ingólfsson, yfirverkstjóri Umhverfisdeildarinnar, að óvenju margir séu duglegir við að skreyta í ár og margir hafi greinilega lagt mikið á sig til þess.

Þetta er í þrettánda sinn sem best skreyttu húsin í Árborg eru valin en það var gert í fyrsta skipti árið 1998. Umhverfisdeild sveitarfélagsins sér um þetta verkefni í samstarfi við nokkur fyrirtæki á Selfossi sem gefa verðlaun og fleira.

Fyrri greinJólagjöf til Stjörnunnar
Næsta greinSýknaður af rotþróarstuldi