Liðið Berserkir úr Grunnskóla Hornafjarðar sigraði í Stóru LEGO-keppni grunnskólanna, FIRST® LEGO® League Ísland sem fram fór í Háskólabíói í dag. Um leið vann liðið sér inn þátttökurétt á mótum FIRST® LEGO® League erlendis.
Liðið Kraftboltar úr Kerhólsskóla í Grímsnes- og Grafningshreppi varð í 2. sæti.
Keppnin fagnar 20 ára afmæli á Íslandi í ár og var því fagnað með stórglæsilegum viðburði og fjölbreyttri dagskrá fyrir alla fjölskylduna hluta dagsins. Markmið LEGO-keppninnar er að efla áhuga og hæfni nemenda á sviði vísinda og tækni, hvetja til nýsköpunar og styrkja lífsleikni eins og sjálfstraust, samvinnu og samskiptahæfni.
Hátt í 200 þátttakendur í 19 liðum úr grunnskólum víðs vegar af landinu tóku þátt í keppninni að þessu sinni. Þau spreyttu sig á fjölbreyttum verkefnum, þar á meðal að forrita LEGO-vélmenni til að leysa þrautir á keppnisbraut og vinna nýsköpunarverkefni sem tengist þema keppninnar, sem í ár var Uppgröftur. Enn fremur áttu liðin að kynna hönnun vélmenna sinna fyrir dómnefnd og við mat á frammistöðu var einnig horft til liðsheildar.
Þegar stigagjöf í einstökum þátttum keppninnar hafði verið tekin saman kom í ljós að liðið Berserkir úr Grunnskóla Hornafjarðar varð hlutskarpast. Í viðurkenningarskyni fékk liðið forláta bikar úr LEGO-kubbum og 300 þúsund krónur í verðlaunafé. Jafnframt býðst liðinu að taka þátt í alþjóðlegum mótum FIRST® LEGO® League en keppnin nær til meira en 600.000 barna og ungmenna í 110 löndum um heim allan.
Verðlaun í einstökum flokkum fengu eftirtalin lið:
Besta hönnun og forritun vélmennis
1. sæti: Robody Builders úr Garðaskóla
2. sæti: Fiona´s minors úr Landakotsskóla
3. sæti: Double 3 Baka úr Austurbæjarskóla
Vélmennakappleikur
1. sæti: Berserkir og Fortíðar Kubbar úr Grunnskóla Hornafjarðar (tvö lið jöfn)
2. sæti: Fat Cats úr Holtaskóla
3. sæti: The Minors úr Rimaskóla
Besta liðsheildin
1. sæti: Berserkir úr Grunnskóla Hornafjarðar
2. sæti: Kraftboltar úr Kerhólsskóla
3. sæti: Skóflurnar úr Vogaskóla
Besta nýsköpunarverkefnið
1. sæti: The Minors úr Rimaskóla
2. sæti: Jóhannes´ Minions úr Reykjahlíðarskóla
3. sæti: Fortíðar Kubbar úr Grunnskóla Hornafjarðar
Jafningjaverðlaun
The gr8 eight úr Vopnafjarðarskóla

þessu sinni. Ljósmynd/Sigurjón Ragnar
Háskóli Íslands hefur haldið utan um keppnina frá upphafi með stuðningi ýmissa fyrirtækja. Líkt og undanfarin ár er Verkfræðingafélag Íslands helsti bakhjarl keppninnar og á stóran þátt í að gera þessa spennandi keppni að veruleika.

