Beroma opnar netverslun

Barnavöruverslunin Beroma á Selfossi opnar í dag vefverslun á www.beroma.is.

Berglind Rós Magnúsdóttir hefur saumað og selt fjölbreytt úrval af barnafötum á stráka og stelpur undanfarið ár undir merkinu Beroma.

„Þar til í sumar hafði ég eingöngu selt Beroma vörurnar í gegnum PopUp markaði og á Facebook. Salan í gegnum Facebook hafði aukist gríðarlega í hverjum mánuði og til að sinna mínum viðskiptavinum á sem bestan hátt var þægilegast að opna netverslun,” sagði Berglind í samtali við sunnlenska.is. „Ég á mikið af fastakúnnum allstaðar af á landinu og get á þennan hátt þjónustað þá mun betur.”

Auk þess að selja eigin hönnun hefur Beroma einnig til sölu ýmsar innfluttar vörur fyrir börn, veggfóðursmyndir, sixpensara, sundfatnað og ýmsa fylgihluti.

Allar vörur sem seldar eru í netversluninni er einnig hægt að nálgast í versluninni Hosiló á Selfossi.

Í tilefni af nýjum opnunartíma Hosiló og opnun vefverslunar Beroma verður haustfagnaður í Hosiló í dag frá kl. 14 til 21:30. Gestir eru boðnir velkomnir í múffumunngæti, kaffi og „léttari veitingar”.