Bergheimar til fyrirmyndar í umhverfismálum

Eiríkur Vignir Pálsson, formaður skipulags- byggingar- og umhverfisnefndar Ölfuss, Dagný Erlendsdóttir leikskólastjóri og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. Ljósmynd/MHH

Leikskólinn Bergheimar í Þorlákshöfn fékk umhverfisverðlaun Ölfuss 2019 afhent á sumardaginn fyrsta. Afhendingin fór fram við hátíðlega athöfn í Landbúnaðarháskólanum að Reykjum.

Verðlaunin eru veitt þeim sem sýnt hefur einstakt framtak á sviði umhverfismála. Við valið er horft til þeirra fyrirtækja, stofnana eða einstaklinga sem láta sig umhverfismál varða, hafa mótað sér umhverfisstefnu eða á annan hátt verið til fyrirmyndar hvað varðar umhverfismál.

Það er skipulags-, byggingar- og umhverfisnefnd Sveitarfélagsins Ölfus sem velur þann sem hlýtur verðlaunin ár hvert.

Í umsögn nefndarinnar segir að verðlaunin séu veitt fyrir að móta sterka umhverfisvitund okkar mikilvægasta fólks.

Leikskólinn hefur nú fengið tvo grænfána og vinnur af þeim þriðja en grænafánaverkefni hefur víðtæk áhrif og taka skólar ábyrga afstöðu í málum sem snerta umhverfið. Leikskólinn virkjar nemendur með raunverulegri umhverfisþáttöku s.s. að hreinsa umhverfi í bæjarfélaginu, láta þau vinna sjálf að endurvinnslu og flokkun svo eitthvað sé nefnt og auk þess er umhverfi og lóð leikskólans til fyrirmyndar og öðrum til eftirbreytni.

Umhverfissáttmáli Bergheima er einlægur og gagnlegur og mættu fleiri hafa hann í huga: „Okkur þykir vænt um jörðina og okkur sjálf“.

Dagný Erlendsdóttir, leikskólastjóri, veitti verðlaununum viðtöku en það var Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sem afhenti þau.

Verðlaunagripina gerði Dagný Magnúsdóttir glerlistakona í Þorlákshöfn.

Fyrri greinLög Jónasar og Jóns Múla á karlakórstónleikum
Næsta greinJórukórinn syngur Disneylög