Ber að ofan í íslenskri jökulá

Fyrsti þátturinn í nýjustu þáttaröðinni Man vs. Wild þar sem Hollywood-leikarinn Jake Gyllenhaal spreytir sig á Eyjafjallajökli var frumsýndur í Bandaríkunum í gærkvöldi.

Þátturinn er sýndur á Discovery Channel og er hann mikil landkynning fyrir Ísland enda vinsæll og áhorfið mikið vestanhafs. Upptökur á Eyjafjallajökli fóru fram í byrjun apríl sl.

Í þáttunum Man vs. Wild fer þáttastjórnandinn Bear Grylls út í óbyggðir og villta náttúru víðs vegar um heiminn og reynir að bjarga sér sjálfur í nokkra daga. Gyllenhaal var gestur þáttarins sem tekinn var á Íslandi og var hann mjög ánægður með Íslandsdvölina og hamaganginn á Eyjafjallajökli.

Ef eitthvað má marka ameríska netmiðla vakti einna mesta athygli hvar Gyllenhaal snaraði sér úr að ofan og óð ber að ofan yfir jökulkalda á.

,,Þetta snýst fyrst og fremst að uppgötva nýja hluti,” segir Gyllenhaal í fréttatilkynningu frá framleiðendum þáttanna.