Bensínlaus og villtur á fjöllum

Félagar úr Flugbjörgunarsveitinni á Hellu komu spænskum ferðamanni til bjargar í gær við Rauðufossafjöll. Maðurinn var villtur og bensínlaus.

Björgunarsveitarmenn lögðu af stað síðdegis í gær og fundu manninn um kl. 21:30 eftir fjögurra tíma leit. Maðurinn hafði gefið upp GPS staðsetningu samkvæmt tæki sem var í bílaleigubíl hans. Sú staðsetning var hins vegar röng.

Bíll mannsins varð bensínlaus í fyrrinótt og svaf maðurinn í bílnum. Hann taldi sig vera staddan norðaustan við Heklu og eftir að hafa miðað út farsíma mannsins kom í ljós að hann var staddur undir Rauðufossafjöllum.

Björgunarsveitarmennirnir óku um fjölmarga slóða á þessu svæði í töluverðan tíma áður en bíll mannsins fannst loksins. Hann fékk bensín á bílinn og fylgdi síðan björgunarsveitarmönnunum til byggða.

Fyrri greinBlóðbankabíllinn á Selfossi í dag
Næsta greinSelfyssingar læsi bílum sínum