Bensín flæddi úr bilaðri dælu

Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu á Flúðum voru kallaðir út um klukkan hálffimm síðdegis á laugardaginn vegna bensínleka á bensínstöð N1 á Flúðum.

Þar hafði viðskiptavinur verið að dæla bensíni á bíl sinn en vegna bilunar í dælu hætti hún ekki að dæla strax eftir að tankurinn var fullur. Við þetta flæddu um það bil 10 lítrar af bensíni á bílaplanið.

Það var vegna úrræðasemi viðskiptavinarins sem honum tókst að stöðva dæluna og koma þar með í veg fyrir talsvert meiri eldsneytisleka en raun varð.

Slökkviliðsmenn hreinsuðu vettvanginn og komu í veg fyrir að frekari hætta skapaðist af atvikinu.

Fyrri greinBjörguðu Bangsa úr sprungu
Næsta greinEldur í rusli í Núpagryfjum