Benedikt ráðinn íþrótta- og æskulýðsfulltrúi

Benedikt Benediktsson hefur verið ráðinn íþrótta- og æskulýðsfulltrúi í Rangárþingi eystra en það eru auk sveitarfélagsins Knattspyrnufélag Rangæinga og Íþróttafélagið Dímon sem ráða hann í starfið.

Benedikt var valinn úr hópi sjö umsækjenda.

„Þetta er í senn spennandi og krefjandi verkefni, og ákveðið þróunarstarf sem þarna er ráðist í,“ sagði Benedikt í samtali við Sunnlenska. Hann þekkir vel til íþróttafélaganna í Rangárþingi eystra og hefur á undanförnum árum verið þar þátttakandi í starfi með yngri iðkendum.

Hann hefur störf í byrjun maí. Benedikt er búsettur á Hvolsvelli og er meistaramenntaður í kjötiðn. Hann er kvæntur Erlu Berglindi Sigurðardóttur leikskólakennara og eiga þau þrjú börn.