Benda á „dauða“ símapunkta

Bæjarstjórn Ölfuss hefur bent stjórnvöldum á mikilvægi þess að efla GSM fjarskipti í Ölfusinu þar sem víða er að finna staði þar sem farsímar ná ekki sambandi.

Á síðasta bæjarstjórnarfundi var lagt fram erindi frá umhverfis- og samgögnunefnd Alþingis þar sem sveitarfélaginu var gefið tækifæri til að gefa umsögn um 12 ára fjarskiptaáætlun 2011-2022.

Bæjarstjórnin samþykkti samhljóða bókun þar sem fagnað var stefnu stjórnvalda um að ljósleiðaravæða þéttbýliskjarna og efla þar með möguleika landsbyggðarinnar til eflingar atvinnulífs.

Bæjarstjórn telur jafnframt mikilvægt að þegar verði ráðist í að efla GSM fjarskipti á landsbyggðinni og í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og í Ölfusi þar sem víða er að finna staði þar sem farsímar ná ekki sambandi við netið.

Fyrri greinFundu stolnar kerrur
Næsta greinÓnýtur eftir eldsvoða