„Beljur í búð“ sigraði í Plastaþoni

(F.v.) Sigríður Heimisdóttir, Auður Önnu Magnúsdóttir, Móeiður Helgadóttir, Hafdís Bjarnadóttir, Lára Kristín Þorvaldsdóttir og Einar Bárðarson. Ljósmynd/Aðsend

Hugmyndin Beljur í búð stóð uppi sem sigurvegari í Plastaþoni Umhverfisstofnunar og Plastlauss septembers sem fram fór nú um helgina.

Sjö teymi unnu að lausnum á plastvandanum en ákaflega fjölbreyttur hópur fólks tók þátt í viðburðinum.

Dómnefnd skipuðu Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdarstjóri Landverndar, Einar Bárðarson, framkvæmdarstjóri Votlendissjóðs og Sigríður Heimisdóttir, iðnhönnuður hjá IKEA.

Beljur í búð
Hugmyndin er sú að setja upp sjálfsafgreiðsluvélar fyrir mjólkurvörur í verslunum þannig að kaupandinn geti dælt vörunni sjálfur í fjölnota umbúðir.

Teymið samanstóð af tveimur listakonum, tveimur nemum úr Tækniskólanum, verkfræðingi frá Eflu og markaðsstjóra Krónunnar. Tveir Selfyssingar voru í sigurliðinu; þær Dröfn Sveinsdóttir og Móeiður Helgadóttir en með þeim í teyminu voru Gríma Katrín Ólafsdóttir, Hafdís Bjarnadóttir, Lára Kristín Þorvaldsdóttir og Hjördís Elsa Ásgeirsdóttir.

Í rökstuðningi dómnefndar kom fram að stór þáttur í sigri lausnarinnar væri sú staðreynd að hún gæti vel orðið að veruleika í náinni framtíð.

Fyrri greinNý ÓB stöð opnar í Vík
Næsta greinTurudija bestur í 2. deildinni