Belgingur hefur opnað nýjan veðurvef

Veðurvefurinn www.belgingur.is hefur nú verið uppfærður og hefur verið hugað sérstaklega að því að hann sé aðgengilegur í snjalltækjum.

Veðurlíkön hafa einnig verið uppfærð og gerir það notendum m.a. kleift að fylgjast með spám um snjóhulu, vindkælingu og gasdreifingu frá eldstöðinni í Holuhrauni, í viðbót við hefðbundnari spáþætti.

Vinna er þegar hafin að frekari viðbótum og munu þær líta dagsins ljós á næstu vikum og mánuðum, en þar má helst nefna að staðarspárnar verða færðar rækilega til nútímahorfs.

Á vefslóðinni www.belgingur.is hefur almenningur haft aðgang að háupplausnarveðurspám í meira en áratug án endurgjalds. Þær hafa ekki síst nýst útivistarfólki, sjómönnum, ferðaþjónustuaðilum og öllum þeim sem eitthvað eiga undir veðri. Einnig má nefna að vefurinn hefur um árabil verið einn allra vinsælasti veðurvefurinn í Færeyjum.

Fyrri greinNýliðið ár hagstætt Hekluskógum
Næsta greinNíu fluttir á sjúkrahús eftir árekstur rútu og fólksbíls