Beint úr flugeldasölunni í útkall

Björgunarsveitir í Árnessýslu voru kallaðar út á sjöunda tímanum í kvöld vegna fjögurra kvenna í vandræðum efst í hlíðum Ármannsfells, norðan Þingvallavatns.

Konurnar treystu sér ekki til að halda áfram þar sem mikil ísing er í hlíðum fjallsins.

Rúmlega 20 björgunarsveitarmenn voru kallaðir út í verkefnið og komu fyrstu hópar á svæðið um klukkan sjö. En fyrstur á vettvang var hópur frá Björgunarfélagi Árborgar sem var staddur í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi eftir að hafa lokið við flugeldasölu, þegar útkallið barst.

Nú er unnið að því að aðstoða konurnar niður en vel búið björgunarsveitarfólk mun leggja á fjallið. Björgunarsveitafólkið sér ljós kvennanna í fjallinu og er í sambandi við þær í síma og sjá þær ljós bíla björgunarsveitanna.

Fyrri greinGleðilegt nýtt ár!
Næsta greinSigfús sæmdur Fálkaorðu