Sunnudaginn 24. ágúst mun fjölskyldubúið í Laxárdal í Skeiða- og Gnúpverjahreppi opna býlið sitt fyrir gestum í tilefni af Beint frá býli deginum.
Þetta er þriðja árið í röð sem Beint frá býli dagurinn er haldinn en þá eru uppákomur í öllum landshlutum og er Laxárdalur fulltrúi Suðurlands í ár. Þekktasta afurð Laxárdals er án efa Korngrís en svínin hjá Korngrís eru alin að mestu á íslensku fóðri.
„Það er smá stress og spenningur fyrir deginum. Undirbúningurinn hefur tekið þó nokkurn tíma en þetta er allt að smella saman. Við gerum okkur ekki alveg grein fyrir hversu margir koma þar sem við búum ekki í alfaraleið,“ segir Petrína Jónsdóttir, annar eigandi Korngrís, í samtali við sunnlenska.is.
„Við verðum með fjölbreytt úrval hjá okkur þennan dag. Lifefood, Pesto.is, Eimverk, Krispa fish snack, Rabarbía, Sólskinsgrænmeti og Svava Sinnep koma til okkar og kynna og selja sínar afurðir. Við hjá Korngrís ætlum að grilla pylsur og selja þær, einnig verður Pizzavagninn með pizzasneiðar til sölu. Við erum mjög glöð með að vera með nýupptekið grænmeti og nýja vörulínu frá Sólskinsgrænmeti þennan dag. Made in Island kemur einnig með vörur frá öðrum framleiðendum,“ segir Petrína enn fremur.
Opið verður í Laxárdal frá klukkan 13-16 en að Beint frá býli deginum standa Samtök smáframleiðenda matvæla og Beint frá býli. Félögin sameinuðu krafta sína árið 2022 og deila nú framkvæmdastjóra sem er jafnframt verkefnisstjóri dagsins..

