Bein sem kom í veiðarfæri greint með DNA

Frá leitinni að Guðmundi Geir í desember 2015. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Upphandleggsbein úr manni sem kom í veiðarfæri snurvoðarbáts á Selvogsgrunni í maí árið 2017 er úr Guðmundi Geir Sveinssyni sem talið er að hafi fallið í Ölfusá við Selfosskirkju í desember 2015.

Guðmundur var fæddur 13. apríl 1974 og búsettur á Selfossi. Sterkar vísbendingar voru um að hann hafi fallið í Ölfusá við kirkjugarðinn á Selfossi þann 26. desember 2015. Víðtæk leit að Guðmundi reyndist árangurslaus og var hætt en allar götur síðan hafa menn svipast um eftir því hvort eitthvað fyndist sem skýrt gæti hvarf hans.

Þann 18. maí 2017 kom beinið í veiðarfæri bátsins á Selvogsgrunni. Það var sent í aldursgreiningu með geislakolsaldursgreiningu og fékkst þar sú niðurstaða að það væri úr manni sem að líkindum hefði látist á árabilinu 2004 til 2007 og því fáir sem komu til greina sem eigendur að því.

Í janúar síðastliðnum var ákveðið að útvíkka árabil þau sem leitað var innan og við rannsókn Rättmedicinalverket í Svíþjóð kom í ljós að DNA snið úr beininu samsvaraði DNA sýnum sem aflað hafði verið úr aðstandendum Guðmundar Geirs þegar hann hvarf.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi segir að lögreglan hafi fundað með aðstandendum Guðmundar Geirs um þessa niðurstöðu og verða þessar jarðnesku leifar afhentar þeim á allra næstu dögum.

Fyrri greinValdís og Dagbjört sigruðu í fimmgangi
Næsta greinJarðhitasýningunni í Hellisheiðarvirkjun lokað tímabundið