Basar til styrktar göngudeild á HSu

Kvenfélögin þrjú í Flóahreppi, þ.e. kvenfélög Gaulverjarbæjar- Hraungerðis- og Villingaholtshrepps tóku höndum saman fyrir rúmlega ári síðan og ákváðu að vinna sameiginlega að því að halda basar til styrktar góðu málefni.

Þessi kvenfélög hafa unnið þónokkuð saman en þó ekki að neinu svona viðamiklu verkefni, sem er búið að vera mjög skemmtilegt í alla staði, að því er segir í fréttatilkynningu.

Basarinn verður haldinn á morgun, laugardaginn 8. nóvember kl. 14-18 í Þingborg. Úrvalið af handverki verður ótrúlega mikið á basarnum en einnig verður kökubasar og kaffihúsastemmning.

Labbi mun kynna nýja diskinn sinn „Lítið ljós“ og Bjarni Harðarson í Bókakaffinu á Selfossi mun segja frá bókum sem koma út fyrir jólin.

Basarinn eru haldinn til styrktar nýrrar göngudeildar við Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi sem opnuð verður í nóvember og vonast kvenfélagskonurnar til þess að sjá sem flesta á basarnum.

Fyrri greinÁtján marka sigur Selfoss
Næsta greinKeppendur HSK unnu tíu af ellefu titlum