Básahraun 17 og Friðarminni verðlaunuð

Umhverfisverðlaun Ölfuss voru veitt á dögunum fyrir fallegustu garðana í sveitarfélaginu, í þéttbýli og dreifbýli.

Fallegasti garðurinn í þéttbýlinu þótti Básahraun 17 en eigendur hans eru Jóna Guðlaugsdóttir og Gísli Guðnason. Umsögn nefndarinnar um garðinn var eftirfarandi: Garðurinn í þéttbýlinu er vel hirtur, með fjölbreyttu tegundaúrvali og góðri uppbyggingu beða, notagildi er ágætt, skipulagið gott með góðu flæði. Aðkoman er falleg og þegar gengið er að húsinu heyrist í vatni og eykur það enn áhrifin, vekur forvitni á að kíkja inn í garðinn.

Fallegasti garðurinn í dreifbýlinu þótti Friðarminni en eigendur hans eru Guðmundur Guðjónsson og Jakob Jakobsson. Hlaut hann eftirfarandi umsögn: Garðurinn í dreifbýlinu er sömuleiðis vel hirtur, það mætti segja að hann væri sambland að rómantískum garði með miklu notagildi og park. Þegar gengið er um garðinn opnast sífellt ný rými með nýrri upplifun. Notagildi er mikið, bekkjum er komið fyrir víðsvegar um garðinn og hægt er að setjast niður njóta umhverfisins. Í garðinum er einnig veglegur matjurtagarður með öllum hugsanlegum tegundum grænmetis og kryddjurta.

Eigendur þessara garða hlutu í verðlaun gripi til eignar hannaða af handverkskonunni Dagnýju Magnúsdóttur, sem rekur fyrirtækið Hendur í Höfn í Þorlákshöfn, í gripina notaði hún gler, sand og grjót úr fjörunni við Þorlákshöfn.

Einnig hlutu eigendur garðana að Eyjahrauni 11, Knarrarbergi 3 og Hrísum viðkenningu fyrir vel hirta og fallega garða.

Valnefndin var skipuð fulltrúum frá LbhÍ, Kvenfélaginu Bergþóru Ölfusi, Skógræktarfélagi Ölfuss, formanni skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar auk umhverfisstjóra Ölfuss.

Fyrri greinBjörgunarhundur fannst dauður
Næsta greinSteina spil og „innrás“ Dananna minnst