Barni bjargað upp úr sprungu við Hakið

Maður dagsins Hreinn Heiðar Jóhannsson kominn aftur upp úr sprungunni eftir björgunina. Ljósmynd/Björgunarsveitin Ingunn

Ungur drengur hlaut giftursamlega björgun eftir að hafa fallið ofan í sprungu við Hakið á Þingvöllum eftir hádegi í dag.

Björgunarsveitir á suðvesturhorninu fengu tilkynningu um slysið klukkan 13:24 og hröðuðu sér á vettvang. Svo vel vildi til að Hreinn Heiðar Jóhannsson frá Laugardalshólum var að vinna við snjómokstur við Hakið og var því fljótur á staðinn þegar hann fékk veður af slysinu.

Hreinn Heiðar er félagi í Björgunarsveitinni Ingunni á Laugarvatni og hann vílaði ekki fyrir sér að koma sér ofan í sprunguna og til drengsins. Skömmu síðar voru sérhæfðir björgunaraðilar mættir á svæðið og komu drengnum upp úr sprungunni.

„Ég var bara að moka og svo kom einhver einstaklingur hlaupandi að mér og lét mig vita að eitthvað hafði skeð og þá var ég bara snöggur að hugsa og henti mér ofan í til hans, og sem betur fór þetta bara eins vel og hægt var held ég,“ sagði Hreinn í samtali við RÚV í dag.

Aðstæður voru góðar fyrir utan mikið fannfergi sem huldi sprunguna að mestu. Drengurinn virtist óslasaður en hann var fluttur með sjúkrabíl á Landspítalann í læknisskoðun.

Björgunaraðgerðir á Þingvöllum í dag. Ljósmynd/Björgunarsveitin Ingunn
Sprungan var þakin snjó og sást ekki fyrr en drengurinn var fallinn niður um þetta gat. Ljósmynd/Björgunarsveitin Ingunn
Drengurinn féll 7-8 metra niður í sprunguna. Ljósmynd/Björgunarsveitin Ingunn
Drengurinn var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild. Ljósmynd/Björgunarsveitin Ingunn
Fyrri greinHröktum ferðamönnum bjargað af Vatnajökli
Næsta greinFáir kærðir fyrir hraðakstur