Barnaskólanum á Eyrarbakka lokað vegna myglu

Barnaskólinn á Eyrarbakka. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Húsnæði Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri – á Eyrarbakka – hefur verið lokað vegna myglu. Skólahald hjá 7.-10. bekk BES mun falla niður út þessa viku, á meðan lausna er leitað.

Síðastliðið haust óskuðu stjórnendur skólans eftir því að gerð yrði loftgæðaúttekt á húsnæði skólans á Eyrarbakka og var verkfræðistofan Efla fengin til verksins í desember. Niðurstaða úr sýnatöku gefur til kynna að myglu sé að finna í húsnæðinu.

„Það er auðvitað vitað að húsnæðið er gamalt og löngu kominn tími á alvöru viðhald. Í haust fara síðan starfsmenn að kvefast og veikjast og þá förum við að skoða samhengið í þessu, hvort að loftgæðin séu nógu góð. Aðalbyggingin er byggð árið 1913 og það var byggt við hana í upphafi níunda áratugarins og síðan eru þarna nýrri útistofur. Mesta myglan er í aðalbyggingunni en eitthvað í útistofunum líka,“ sagði Páll Sveinsson, skólastjóri BES, í samtali við sunnlenska.is. Á unglingastiginu á Eyrarbakka eru 55 nemendur og fimmtán starfsmenn starfa þar.

Um leið og bráðabirgðaniðurstöður lágu fyrir óskuðu stjórnendur BES eftir fundi með stjórnendum sveitarfélagsins til að ræða viðbrögð við skýrslunni. Á fundi sem fram fór í gær var ákveðið að ekki væri forsvaranlegt að halda úti starfsemi í húsunum á Eyrarbakka og þau þar af leiðandi rýmd strax og vinna hafin við að finna tímabundið kennsluhúsnæði fyrir unglingastig skólans.

„Ég er mjög ánægður með hvað við fengum jákvæð viðbrögð frá stjórnsýslunni. Það vill enginn sjá þetta og þess vegna var brugðist hratt við. Ég er ekki í aðstöðu að svara því núna hver lausnin verður en við stefnum að því að skólahald hefist aftur á mánudaginn. Það er verið að skoða hvaða möguleika við höfum en það er á hreinu að við bjóðum ekki upp á myglað húsnæði,“ sagði Páll að lokum.

Fyrri greinUndir áhrifum með barnið í bílnum
Næsta grein„Enginn í skotlínu þegar gasið sprakk“