Barn missti meðvitund í setlaug

Lögreglan á Selfossi var kölluð til í fimm skipti vegna slysa á fólki um helgina. Á sunnudag var komið að meðvitundarlausu barni í setlaug við sumarbústað í Hrunamannahreppi.

Barninu var komið til meðvitundar og flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar á slysadeild Landspítala til frekari aðhlynningar. Þyrlan og sjúkrabíllinn mættust í Brautarholti á Skeiðum og þaðan var flogið með barnið á LSH.

Sama dag axlarbrotnaði karlmaður á Flúðum. Hann var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild Landspítala.

Þá fór karlmaður úr axlarlið er honum skrikaði fótur og féll við Kerið og kona slasaðist á höfði er hún féll á palli við sumarbústað í Bláskógabyggð. Í gær datt hestamaður af baki hests í Bláskógabyggð. Maðurinn skaddaðist á baki.

Að sögn lögreglu var mikil en jöfn umferð var á vegum í Árnessýslu um helgina. Ellefu umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu en engin alvarleg slys á fólki í þeim.

Fyrri greinÁfram aukning í sölu
Næsta greinTvö kynferðisbrot kærð um helgina