Bannað að rukka inn á Geysissvæðið

Héraðsdómur Suðurlands úrskurðaði í morgun að sýslumaðurinn á Selfossi skuli leggja lögbann á gjaldtöku á Geysissvæðinu.

Gjaldtaka hófst á Geysissvæðinu þann 15. mars síðastliðinn, en tveimur dögum áður hafnaði sýslumaðurinn á Selfossi lögbannskröfu ríkisins vegna innheimtunnar. Ríkið skaut þá málinu til Héraðsdóms Suðurlands.

Í niðurstöðu héraðsdóms segir meðal annars að samkvæmt almennum reglum eignarréttar gildi sú meginregla um sérstaka sameign að samþykki allra sameigenda þurfi til óvenjulegra ráðstafana og ráðstafana sem séu meiriháttar þótt venjulegar geti talist. Að mati dómsins hefur íslenska ríkið sannað eða gert það sennilegt að sú athöfn landeigenda að selja aðgang að hverasvæðinu brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti ríkisins þar sem gjaldtakan muni skerða heimildir ríkisins til nota og ráðstöfunar á sameignarlandi hans, umferðarrétti ríkisins um sameignarlandið og rétti þess til þátttöku í ákvarðanatöku varðandi uppbyggingu á svæðinu.

Landeigendafélaginu er einnig gert að greiða ríkissjóði hálfa milljón króna í málskostnað.

Fyrri greinNjörður leiðir Samfylkinguna
Næsta greinVöxtur í verkefnum lögreglunnar