Bankinn lækkar vexti vegna Rangárhallarinnar

Héraðsnefnd Rangæinga sendi í sumar fyrirspurn til Landsbankans þar sem spurt var hvort bankinn væri tilbúinn að lækka vaxtakjör á láni vegna Rangárhallarinnar á Gaddstaðaflötum, gegn því að lánið væri greitt niður um 10 milljónir króna.

Í svari frá bankanum kemur fram að hann býðst til að lækka vexti um 0,25 prósentustig. Þannig myndu núverandi vextir lækka úr 5,30 prósent í 5,05 prósent eftir innágreiðslu.

Stjórn héraðsnefndar hefur í kjölfarið samþykkt að greiða umræddar tíu milljónir króna til lækkunar höfuðstól lánsins.