Flugvél frá bandaríska sjóhernum hefur undanfarna klukkustund hringsólað í kringum Selfoss. Fleiri herflugvélar hafa verið á flugi yfir Suðurlandi í morgun.
Vélin lagði upp frá Álaborg í Danmörku klukkan hálf níu í morgun að íslenskum tíma. Um er að ræða vél af gerðinni Boeing P-8 Poseidon, sem notuð er við kafbátaleit hér á norðurslóðum auk þess sem vélarnar nýtast í upplýsinga-, eftirlits- og njósnastarfsemi. Hún er vopnuð tundurskeytum, Harpoon-skipflaugum og getur varpað og fylgst með hljóðbaujum á hafi úti.
Vélin hefur farið marga hringi yfir Sandvíkurhreppi, beygt til hægri upp Ölfusið að Hveragerði og síðan aftur í austur yfir Ingólfsfjall og aftur niður í Flóa.
Sunnlenska.is hefur ekki heimildir um áfangastað vélarinnar en naskir netverjar á Facebook hafa giskað á að áhöfnin hafi staldrað hér við til að dást að fegurð Flóans, eða þá að hún sé að leita að herflugvellinum í Kaldaðarnesi.
Tvær aðrar vélar voru á ferðinni yfir Suðurlandi í morgun, önnur bandarísk en hin frá konunglega breska flughernum.
UPPFÆRT: Vélin lenti kl. 13:08 í Keflavík.


