Banaslys í Reynisfjöru

Karlmaður á áttræðisaldri lést í gær þegar alda hreif hann með sér úr Reynisfjöru og út í sjó. Eiginkona mannsins lenti í sömu öldu en tókst, fyrir snarræði nærstaddra, að bjarga sér áður en hún sogaðist út í brimið.

Björgunarsveitir af Suðurlandi og úr Vestmanneyjum voru kallaðar til aðstoðar ásamt þyrlusveit Landhelgisgæslunnar. Aðstæður til aðgerða úr landi voru erfiðar og hættulegar viðbragðsaðilum vegna mikils brims.

Maðurinn var hífður upp í þyrluna strax og hún kom á staðinn en reyndist þá látinn.

Hjónin voru í hópi erlendra ferðamanna í skipulagðri ferð á vegum ferðaskrifstofu. Áfallateymi Rauða kross Íslands var kallað út til þess að hlúa að fólki úr hópnum.

Lögreglan á Suðurlandi vinnur að rannsókn slyssins.

Fyrri greinÁrborg lagðist í skotgrafirnar og sigraði
Næsta greinSjómannadagsgleði á Þorlákshafnarvelli