Lögreglunni á Suðurlandi barst aðstoðarbeiðni um klukkan 22 á föstudagskvöld frá erlendum ferðamönnum sem dvöldu í Öræfum. Ferðamennirnir óskuðu aðstoðar við leit að 19 ára samferðamanni sem hafði farið í göngu við Svínafell og ekki komið til baka innan eðlilegra tímamarka miðað við áætlun.
Björgunarsveit í Öræfum var kölluð út þegar í stað til leitar sem og þyrla Landhelgisgæslunnar. Eftir skamma leit í krefjandi landslagi fannst ferðamaðurinn sem leitað var að en hann reyndist þá vera látinn. Þyrluáhöfn landhelgisgæslu og björgunarsveitarfólk fluttu hinn látna af vettvangi.
Lögreglan á Suðurlandi hefur atvikið til rannsóknar. Ekkert hefur komið fram sem bendir til annars en að maðurinn hafi látist af slysförum.