Banaslys á Mýrdalssandi

Erlendur ferðamaður á sjötugsaldri lést í árekstri fólksbíls og sendibíls á Mýrdalssandi, vestan við Kúðafljót á fjórða tímanum í dag.

Maðurinn var ökumaður bílsins og var hann úrskurðaður látinn á vettvangi. Farþegi í bílnum, eiginkona hins látna, var flutt alvarlega slösuð með sjúkrabíl til móts við þyrlu Landhelgisgæslunnar og síðan áfram á sjúkrahús í Reykjavík.

Ökumaður sendibílsins var einn á ferð og reyndust meiðsli hans minniháttar.

Lögreglan á Suðurlandi rannsakar tildrög slyssins en bifreiðunum var ekið úr gagnstæðum áttum. Lögreglan mun ekki gefa upplýsingar um einstaka þætti rannsóknarinnar fyrr en að henni lokinni.

Fyrri greinMarkaregn hjá Uppsveitum og Árborg
Næsta greinSunnlensku fjallkonurnar 2022