Banaslys á Biskupstungnabraut

Banaslys varð á Biskupstungnabraut undir Ingólfsfjalli, á milli Tannastaða og Alviðru, um klukkan hálfníu í gærkvöld.

Ökumaður fólksbíls virðist hafa misst stjórn á bifreiðinni í glerhálku en bíllinn fór útaf veginum austan megin og valt nokkrar veltur.

Tveir farþeganna köstuðust út úr bifreiðinni og var sá er lést annar þeirra. Hann var á þrítugsaldri, rúmenskur en búsettur hér á landi.

Hann lenti undir bílnum og var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á sjúkrahús í Reykjavík þar sem hann var úrskurðaður látinn.

Sex voru í bílnum en fjór­ir slösuðust minniháttar og voru fluttir á slysadeild á Selfossi. Tveir slösuðust al­var­lega og voru þeir flutt­ir til Reykja­víkur. Hinn maðurinn var fluttur með sjúkrabíl og mun hann ekki vera í lífshættu. Fólkið er frá Rúmeníu, Tékklandi og Íslandi.

Lögreglan vinnur að rannsókn slyssins, skýrslutökum af ökumanni og farþegum auk rannsóknar á ökutækinu sjálfu.

UPPFÆRT KL. 10:30

Fyrri greinJafntefli í snjóbolta á Selfossi
Næsta greinBirna ráðin skólastjóri Hvolsskóla