Alvarlegt umferðarslys varð á Biskupstungnabraut, skammt frá Alviðru undir Ingólfsfjalli, um klukkan hálftvö í dag. Um var að ræða árekstur tveggja bifreiða og var ökumaður annarrar bifreiðarinnar úrskurðaður látinn á vettvangi.
Tveir aðrir voru fluttir til aðhlynningar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna slyssins en afturkölluð skömmu síðar. Ásamt lögreglu voru sjúkrabifreiðar frá HSU og tækjabíll frá Brunavörnum Árnessýslu boðuð á vettvang, ásamt rannsóknarnefnd samgönguslysa.
Rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi fer með rannsókn slyssins og ekki verða gefnar frekari upplýsingar að sinni. Biskupsstungnabraut hefur verið opnuð fyrir umferð að nýju.

