Baldvin Alan sigraði í upplestrarkeppninni

Stóra upplestrarkeppni grunnskólanna var haldin í Ráðhúsi Ölfuss í síðustu viku, fyrir skólana í Árborg, Ölfusi og Hveragerði. Baldvin Alan Thorarensen, Grunnskólanum í Hveragerði, sigraði.

Fimmtán nemendur tóku þátt frá fimm grunnskólum og stóðu sig allir með prýði. Sem fyrr segir sigraði Baldvin Alan, í öðru sæti var Guðjón Leó Tyrfingsson, Sunnulækjarskóla, og í þriðja sæti Hekla Rún Harðardóttir, Vallaskóla.

Í fyrstu umferð voru lesnar svipmyndir úr skáldsögunni Ertu Guð, afi? eftir Þorgrím Þráinsson, í annarri umferð voru lesin upp ljóð eftir Erlu og í þriðju umferð lásu þátttakendur upp ljóð að eigin vali.

Undirbúningur keppninnar hefur staðið frá því fyrir áramót og hélt Guðrún Þóranna Jónsdóttir utan um keppnina, en hún var ráðin í verkefnið af skólaþjónustu Árborgar.

Auk þess hefur hefur Guðrún Þóranna unnið með skólunum að þróun Litlu upplestrarkeppninnar sem er nú haldin í fyrsta sinn í skólum Sveitarfélagsins Árborgar fyrir nemendur í 4. bekk.

Fyrri greinSumarið komið í Fljótshlíðinni
Næsta greinKatla teflir á NM