Baldur leysir Herjólf af

Breiðafjarðarferjan Baldur mun leysa Herjólf af út septembermánuð í siglingum milli Landeyjahafnar og Eyja. Herjólfur er á leið til Danmerkur í slipp og áætlað er að hann snúi aftur þann 1. október.

Baldur mátaði Landeyjahöfn í gær og segir Sigmar Jónsson, hafnarstjóri, að það hafi gengið vel. „Baldur er aðeins mjórri en Herjólfur þannig að við þurfum að setja belgi utan á bryggjuna svo að hann leggist rétt að bílarampinum. Síðan verður notaður farþegalandgangur sem er um borð í Baldri og honum er rennt niður á bryggjuna þar sem landgangur Herjólfs er of hár fyrir Baldur,“ sagði Sigmar.

Baldur hefur leyfi til þess að flytja 190 farþega og pláss fyrir 36 bíla. Þetta er talsvert lægri flutningsgeta heldur en hjá Herjólfi.

Áhöfnin á Baldri mun fylgja skipinu í þetta verkefni en stýrimenn og þernur af Herjólfi munu einnig starfa um borð.

Baldur2_landeyja040911sigj_437792520.jpg
Baldur í Landeyjahöfn. sunnlenska.is/Sigurður Jónsson

Fyrri greinHK sigraði á Ragnarsmótinu
Næsta greinSterkt Útsvarslið í Hveragerði